Landsmönnum fjölgaði 2010

Landsmenn voru 318.452 í lok síðasta árs.
Landsmenn voru 318.452 í lok síðasta árs. mbl.is/Ómar

Hinn 1. janúar 2011 voru landsmenn alls 318.452 og hafði fjölgað um 822 frá sama tíma árið 2010. Hagstofan segir, að þetta jafngildi fjölgun landsmanna um 0,3%.

Á árinu 2009 fækkaði fólki á Íslandi frá árinu á undan, í fyrsta sinn frá lokum 19. aldar.

Fólksfækkun var á fimm landsvæðum, mest á Vestfjörðum þar sem fækkaði um 225 manns, eða 3,1%. Umtalsverð fólksfækkun var einnig á Suðurnesjum, Austurlandi og Suðurlandi en á Norðurlandi vestra fækkaði um einn íbúa.

Fólksfjölgun var á höfuðborgarsvæðinu, en þar voru íbúar 1434 fleiri 1. janúar 2011 en fyrir ári. Það jafngildir 0,7% fjölgun íbúa á einu ári. Fólki fjölgaði einnig á Norðurlandi eystra, um 106 einstaklinga (0,4%), og lítilsháttar fjölgun (9 manns) var á Vesturlandi.

76 sveitarfélög

Hinn 1. janúar 2011 voru alls 76 sveitarfélög á landinu og hafði þeim fækkað um eitt frá fyrra ári eftir sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar í nýtt sveitarfélag, Hörgársveit. Íbúatala hins nýja sveitarfélags var 600 hinn 1. janúar 2011. Alls var íbúatala fimm sveitarfélaga undir 100, en undir 1000 í 43 sveitarfélögum.

Kjarnafjölskyldur voru 77.370 hinn 1. janúar 2011 en 77.227 ári áður. Hinn 1. janúar voru 3843 einstaklingar í hjónabandi en ekki í samvistum við maka. Hér er um að ræða einstaklinga sem skilið hafa að borði og sæng og hjónabönd þar sem annar makinn hefur flutt lögheimili sitt til útlanda. Hagstofan segir, að nokkuð hafi fjölgað í þessum hópi á síðustu tveimur árum miðað við undanfarin ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert