„Verkfallið mun að öllum líkindum koma til framkvæmda síðdegis næsta þriðjudag,“ segir Ragnar Árnason, forstöðumaður vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins sem segist ekki sjá fram á að SA muni semja við bræðslumenn áður en boðað verkfall hefst.
SA kærðu boðun verkfalls sem átti að hefjast 7. febrúar og dæmdi félagsdómur verkfallið ólöglegt. Ragnar sagðist ekki eiga von á að SA myndi kæra þessa nýjustu verkfallsboðun. Hann sagðist reikna með að menn hefðu staðið rétt að málum í þetta sinn.
„Ég reikna ekki með því að það verði samið áður en verkfallið hefst,“ sagði Ragnar. „Samtök atvinnulífsins hefur lagt áherslu á að það verði gerður samningur til þriggja ára. Það að gera samning við starfsmenn fiskimjölsverksmiðja til nóvemberloka á þessu ári sem felur í sér 8% kostnaðarauka er langt frá því sem við teljum vera ásættanlegt. Þarna væru starfsmenn í fiskimjölsverksmiðjum að marka brautina fyrir öll landsambönd Alþýðusambandsins. Samtök atvinnulífsins verða að marka þá stefnu með landsamböndunum en ekki vegna 75 starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjum.“
Ragnar sagði að SA hefði boðið starfsmönnum í fiskimjölsverksmiðjum að þeir myndu fá sömu launabreytingar og Afl og Drífandi, sem boðað hafa verkföllin, munu semja um vegna fiskvinnslufólks, en félögin hefðu hafnað því.