Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sér nú fleiri dæmi en áður um skipulagða þjófaflokka sem vinna saman að innbrotum. Þeir kanna aðstæður áður en þeir láta til skarar skríða og í nýlegu máli vann þjófaflokkurinn þannig að einn beið á verði á meðan tveir brutust inn.
„Þeir hringja til dæmis gjarnan dyrabjöllum til að kanna hvort einhver sé heima, fara svo á bak við húsin og brjóta sér leið inn þaðan, oft frá stöðum þar sem lítil umferð er og lítið um mannaferðir,“ segir Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu.
Í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að hjón sem brotist var inn hjá fyrir stuttu auglýstu eftir þýfinu og fengu það afhent gegn því að greiða á þriðja hundrað þúsund krónur . „Það var engin trú hjá tryggingafélaginu og lögreglunni á að það myndi nokkuð finnast. Ég efast ekki um að þeir vilja vel, en viðmótið sem við fundum fyrir hjá þeim var uppgjöf, sem er sennilega raunsætt viðhorf,“ sagði annað hjónanna.