Fjöldi tannlækna er óánægður með samning Sjúkratrygginga Íslands um forvarnaskoðun þriggja, sex og tólf ára barna sem rann út um áramótin en var framlengdur einhliða af velferðarráðuneytinu um sex mánuði.
Samkvæmt honum geta öll börn í þessum árgöngum mætt ókeypis í skoðun og tannlæknarnir senda reikninginn beint til SÍ.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður Benediktsson, formaður Tannlæknafélags Íslands, að nokkuð margir hafi sagt sig frá samningnum síðustu vikur. Hann segir óánægjuna mega rekja til nýrra laga um sjúkratryggingar sem tóku gildi 1. október 2008. Í þeim var ekki gert ráð fyrir að samið væri við fag- eða stéttarfélög.