Fréttaskýring: Viðtengingarháttur á miklu undanhaldi

Hildur Ýr Ísberg.
Hildur Ýr Ísberg.

Hildur Ýr Ísberg, nemi í íslensku við Háskóla Íslands, framkvæmdi athyglisverða rannsókn fyrir jól en niðurstöður hennar virðast benda til þess að ungmenni í dag noti viðtengingarhátt í mun minni mæli en eldri kynslóðir. Rannsóknin er BA-verkefni Hildar við Íslensku- og menningardeild en leiðbeinandi hennar er Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor.

„Ég fékk þessa hugmynd eftir að hafa kennt í unglingadeild í mörg ár, þá heyrði ég krakkana tala svona og langaði að rannsaka það betur,“ útskýrir Hildur. Sem dæmi um þessa tilhneigingu nefnir hún að í stað þess að segja ég kæmist ekki á laugardaginn þótt hann byði mér þá segi krakkarnir þótt hann bauð mér.

Þátttakendur rannsóknarinnar voru hópur ungmenna fæddur 1996 og annar hópur fólks á aldrinum fimmtugt og eldra. Niðurstöðurnar voru þær að stór hópur unga fólksins notar framsöguhátt þátíðar í stað viðtengingarháttar þátíðar og voru niðurstöðurnar mest afgerandi varðandi sterkar eða núþálegar óreglulegar sagnir eins og bjóða og mega.

Málkerfið að einfalda sig

Hildur segir viðtengingarháttinn vera á undanhaldi víðar en á Íslandi og nefnir m.a. færeysku og ensku sem dæmi. Þessa þróun megi svo setja í víðara samhengi. „Viðtengingarháttur er mjög flókinn og svo virðist sem málkerfið sé að reyna að einfalda sig. Sagnbeygingar, sérstaklega óreglulegra sagna, eru erfiðar viðfangs og þá virðast yngri málnotendur vera að einfalda beygingarnar,“ segir Hildur og nefnir þágufallssýki sem annað dæmi um þessa tilhneigingu tungumálsins.

Hildur segir erfitt að berjast við svona þróun en mjög spennandi að fylgjast með henni. „Mín skoðun er sú að íslenskan sé ákaflega auðugt mál af því að hún er svo rík af blæbrigðum og beygingum og ég væri alveg til í að hún héldist þannig. En það er nauðsynlegt að fylgjast með þessu,“ segir hún og máli sínu til stuðnings bendir hún á að sú spurning sem hún hafi oftast þurft að svara varðandi rannsóknina sé „Hvað er viðtengingarháttur?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert