Fær bætur vegna áreitni yfirmanns

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness.

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt fyrirtæki til að greiða konu miskabætur en fyrirtækið var talið bera ábyrgð á tjóni sem konan varð fyrir vegna kynferðislegrar áreitni sem hún sætti af hálfu yfirmanns síns og eineltis innan fyrirtækisins í kjölfarið. 

Málið er rakið í dómnum. Upphaf þess er þegar konan fór með framkvæmdastjóra deildarinnar, sem konan vann hjá í fyrirtækinu og yfireftirlitsmanni fyrirtækisins í vinnuferð í sumarbústað í Grímsnesi í mars 2009. Var tilgangur ferðarinnar m.a. að fara yfir breytingar í starfi hennar sem áttu að fela í sér aukna ábyrgð og umfangsmeiri verkefni.

Mennirnir tveir fóru í heitan pott eftir kvöldmat og reyndi framkvæmdastjórinn ítrekað að fá konuna með þeim í pottinn en hún sagðist ekki hafa haft sundföt og neitaði því ítrekað. Hún hefði þó fyrir áeggjan þeirra beggja sest á stól við heita pottinn og þá tekið eftir því að framkvæmdastjórinn var nakinn.

Konan sagði, að sér hefði liðið verulega illa yfir stöðu sinni og farið að sofa. Hún hefði sett ferðatösku sína fyrir dyrnar til að heyra ef einhver reyndi að komast inn. Þá hefði hún ekki getað hugsað sér að hátta.

Um klukkustund síðar  var bankað á svefnherbergishurðina en konan svaraði ekki. Aftur var bankað og framkvæmdastjórinn ruddist inn í herbergið. Hún hefði síðan sest með honum í sófa frammi í stofu og maðurinn hafi ítrekað sagt henni að honum væri kalt og beðið hana um að taka um hönd sína. Konan sagðist hafa verið ráðvillt og liðið mjög illa. Hún hefði síðan farið aftur inn í herbergið sitt og sett töskuna fyrir. Hún hefði hringt í eiginmann sinn tvívegis og sagt honum frá aðstæðum sínum.  

Konan kvartaði við starfsmannaþjónustu fyrirtækisins í kjölfarið og var niðurstaðan sú að framkvæmdastjórinn fékk áminningu þótt fyrirtækið tæki fram að ekki væri litið á framkomu hans sem kynferðislega áreitni.

Konan fékk nýjan yfirmann en segir að í kjölfarið hafi verkefni verið tekin af henni og starf hennar takmarkað. Þá hafi framkvæmdastjórinn ítrekað haft við hana samskipti þótt því hefði verið heitið að konan þyrfti ekki að umgangast hann.

Undir lok ársins 2009 sagðist konan vilja hætta störfum hjá fyrirtækinu en hún hafði þá verið óvinnufær um hríð sökum veikinda og gekkst meðal annars undir sálfræði- og lyjfameðferð vegna andlegrar vanlíðunar. Hún hefur verið í launalausu leyfi frá því í janúar 2010 en fyrirtækið hefur ekki sagt henni upp  og lýst því yfir að það vilji fá hana aftur til starfa.

Í niðurstöðu sinni segir Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, að upplifun konunnar af háttsemi yfirmanns hennar í sumarbústaðnum hafi tvímælalaust verið sú að um kynferðislega áreitni hafi verið að ræða. Ósannað sé hvað manninum gekk  til þar sem hann gaf ekki skýrslu fyrir dóminum

Segir dómarinn síðan, að þrátt fyrir það að nekt ein og sér teljist almennt ekki til kynferðislegrar áreitni telji hann sannað að ofangreind háttsemi hafi verið kynferðisleg áreitni í skilningi laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Engu breyti þar um að kærði kærði málið ekki til lögreglu.

Þá segir dómarinn, að ljóst þyki að þyki að konan hafi orðið fyrir miska vegna þeirrar kynferðislegu áreitni sem hún varð fyrir í vinnutíma og eineltis í kjölfar kvörtunar hennar. Það athafnaleysi fyrirtækisins, að búa ekki svo um hnútana að konunni væri fært að sinna starfi sínu áfram, sem hún var í áður en kynferðisleg áreitni átti sér stað, hafi verið til þess fallið að valda konunni vanlíðan. Þetta athafnaleysi yfirmanns konunnar hafi falið sér meingerð gegn persónu hennar, sem fyrirtækið beri ábyrgð á.

Konan fékk því dæmdar 800.000 krónur í miskabætur ásamt dráttarvöxtum. Þá fékk hún 965 þúsund krónur í bætur vegna ógreiddra launa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert