„Við fengum gögnin í hús í gær,“ sagði Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari í samtali við mbl.is, en embættið hefur fengið í hendur gögn sem lagt var hald á við húsleit í Banque Havilland, áður Kaupþingi í Lúxemborg.
„Þetta töluvert af pappír. Miðað við fraktseðlana þá hefur þetta legið eitthvað í kringum 150 kíló,“ segir Ólafur Þór. Aðspurður segir hann að embættið sé nú búið að fá í hendur öll þau gögn
sem það hafi kallað eftir í tengslum við rannsóknina á Kaupþingi.
„Þetta er skref í áttina að komast að niðurstöðu. Þetta er leggur af
viðskiptunum sem við þurftum að fá frekari upplýsingar um, sem áttu sér
stað á milli landanna. Þannig að þetta skiptir máli,“ segir Ólafur Þór.
Gögnin varða rannsókn á viðskiptum með hlutabréf í bankanum sjálfum sem og viðskipti með skuldatryggingar, sem ætlað var að hafa áhrif á skuldatryggingarálag.
Húsleit á vegum embættisins var gerð í febrúar í fyrra, en viðskiptavinir Banque Havilland kærðu afhendingu gagnanna. Því hafa þau ekki fengist afhent fyrr en nú, eftir að Hæstiréttur í Lúxemborg úrskurðaði þar um.