Dómari fjallar um Twitter-mál Birgittu

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Kristinn

Bandarískur alríkisdómari í Virginíu mun í næstu viku fjalla um hvort bandaríska dómsmálaráðuneytið getur krafið samskiptavefinn Twitter um upplýsingar um netnotkun Birgittu Jónsdóttur, alþingismanns, og fleiri einstaklinga sem tengdust vefnum WikiLeaks. 

Fram kemur á vefnum CNET, að málið verði tekið fyrir 15. febrúar í Alexandriu í Virginíu. Búist sé við, að það snúist einum um hvort dómsmálaráðuneytið hafi lagagrundvöll til að krefjast upplýsinganna og hvort birta eigi dómsskjöl í málinu.

Lögmenn hafa lagt fram kröfu fyrir hönd Birgittu, Robs Gonggrijps og Jacobs Appelbaums um að kröfu dómsmálaráðuneytisins verði vísað frá.  Segja þeir ekki sé hægt að sýna fram á, að þær upplýsingar, sem dómsmálaráðuneytið krefst skipti máli í rannsókn ráðuneytisins á starfsemi WikiLeaks.  

Segja lögmennirnir, að skjólstæðingar þeirra noti einnig Twitter til að ræða um pólitísk og persónuleg mál sem tengist ekki WikiLeaks með neinum hætti.

Benda þeir á, að Birgitta sé þingmaður erlends ríkis og noti Twitter-vefinn einkum til að ræða um íslensk málefni. Verði orðið við kröfu bandaríska dómsmálaráðuneytisins gæti það skapað fordæmi fyrir erlend stjórnvöld til að krefjast samskonar upplýsinga um bandaríska þingmenn.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert