Fá ekki meiri hækkanir en aðrir

Vilmundur Jósefsson.
Vilmundur Jósefsson.

„Við munum ekki ganga að kröfum starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjunum. Þeir munu ekki fá aðrar launahækkanir en aðrir hópar semja um,“ sagði Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins á opnum fundi SA um atvinnumál og stöðu kjarasamninga í morgun. 

„Við höfum ásamt viðsemjendum okkar kallað á aðkomu ríkisstjórnarinnar að lausn ýmissa mála sem brenna á okkur og á almenningi í landinu. Sameiginlegt öllum aðilum er vantraust á vilja og getu ríkisstjórnarinnar til að standa við orð sín,“ sagði hann.

Vilmundur gagnrýndi ríkisstjórnina og sagði að orð án athafna virtust vera einkunnarorð hennar. „Við þessar aðstæður koma svo fram hópar sem telja sig búa við sterkari stöðu en aðrir á vinnumarkaðnum og geti sótt sér launahækkanir sem eru langt umfram það sem skynsamlegt er til að halda hér verðbólgu í skefjum og byggja upp öflugt atvinnulíf þar sem störfum fjölgar og lífskjör batna.

Starfsmenn í fiskimjölsverksmiðjum ríða nú á vaðið og hafa boðað verkfall yfir hápunkt loðnuvertíðarinnar til að sækja sér tuga prósenta launahækkanir sem flæða munu yfir allan vinnumarkaðinn verði orðið við kröfum þeirra,“ sagði Vilmundur. 

Hann sagði það vera skrýtið að ekki skuli vera unnt að búa þeim sem vilja fjárfesta í gagnaverum hér á landi sambærileg starfsskilyrði og í Evrópu. ,,Það er líka merkilegt að ríkisstjórnin skuli finna fjárfestingum í heilbrigðisþjónustu á vegum einkafyrirtækja allt til foráttu.

„Það er alls ekki eðlilegt að ríkisstjórnin skuli við þessar aðstæður efna til sérstaks ófriðar við sjávarútveginn. Það stöðvar allar fjárfestingar í þeirri grein og hefur áhrif á alls kyns fyrirtæki sem þjónusta útveginn og fiskvinnsluna. Svo þegar fulltrúar greinarinnar komast að samkomulagi um framtíðarskipan mála við stjórn og stjórnarandstöðu þá virðist bara ekkert að marka það,“ sagði hann.

 Fram kom í máli Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, að hann teldi að mikill meirihluti aðila á almenna vinnumarkaðinum væri hlynntur því að fara atvinnuleiðina út úr kreppunni sem SA hafa lagt áherslu á að verði farin. Vilhjálmur sagði að trúnaðartraust á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar hafi beðið mikinn hnekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert