Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, kveðst vera hálfhissa og djúpt snortinn yfir því hversu þjóðin fylgist vel með vefsíðunni sinni, sem vakti athygli fjölmiðlanna í gær. Þetta segir ráðherrann á Facebook-síðu sinni.
Í gær birtist texti á síðunni þar sem fram kom að Árni Páll hefði sagt af sér embætti. „Ég er kominn með nóg - Takk fyrir mig,“ var fyrirsögnin á færslunni.
Síðar kom í ljós að Árni Páll hafði orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum.
„Má ekki bara túlka þetta sem ákall um regluleg pistlaskrif á síðuna?“ spurði Árni Páll á Facebook-síðu sinni í gær.
Árni Páll skrifaði síðast pistil á síðuna um mitt síðasta ár.