Brunavarnir Suðurnesja hafa við erfiðar aðstæður glímt við mikinn eld í iðnaðarhúsnæði við Bolafót í Njarðvíkum. Að sögn lögreglu er húsið alelda og er allt tiltækt lið slökkviliðs og lögreglu á staðnum. Í húsnæðinu er rafmagnsverkstæði og bílaþvottastöð en tilkynning barst um eldinn á tólfta tímanum í kvöld.
Rokið hefur gert slökkviliðsmönnum erfitt fyrir. Talið er að eldurinn hafi komið upp á rafmagnsverkstæðinu. Handan götunnar er íbúðahverfi en vindáttin er hagstæð hvað það varðar að reykinn leggur ekki þar yfir.
Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum hafa nokkur útköll verið í kvöld en tjón af völdum roksins yfirleitt verið minniháttar.