Isavia ohf. segir dóm, sem féll í dag vegna kynferðislegrar áreitni starfsmanns félagsins gagnvart samstarfsmanni sínum, koma verulega á óvart. Farið verði yfir dóminn og afleiðingar hans metnar.
Isavia hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dómsins og er hún svohljóðandi:
„Í dag féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness þar sem Isavia er dæmt til greiðslu miskabóta vegna ávirðinga um áreitni starfsmanns félagsins gagnvart samstarfsmanni sínum. Isavia meðhöndlaði málið samkvæmt þeim verklagsreglum sem í gildi voru hjá félaginu og taldi að málinu hefði verið sinnt á fullnægjandi hátt, því kemur niðurstaða dómsins verulega á óvart. Farið verður yfir dóminn og afleiðingar hans metnar.“
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að farið hafi verið eftir verklagsreglum Isavia í einu og öllu varðandi meðferð þessa máls.
Spurð að því hvaða áhrif dómurinn hafi á starfsmanninn, sem samkvæmt dómnum sýndi af sér áreitnina, sagði Hjördís að dómurinn hefði fyrst komið í dag. „Við munum í framhaldi af dómnum meta afleiðingarnar af honum. Þannig að það er ekkert óeðlilegt að viðkomandi sé enn í starfi.“