Rýnifundi um 2. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, frjálsa för vinnuafls, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Harald Aspelund, formaður samningahóps um EES II málefni en 2. kafli er hluti af EES-samningnum, að því er fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
„Flestar gerðir Evrópusambandsins á sviðinu eru þegar innleiddar. Á rýnifundinum var haldið til haga þeirri aðlögun við almannatryggingareglugerðir sem samist hefur um á grundvelli EES-samningsins. Ekki var rætt um sérlausnir eða undanþágur," segir í tilkynningunni.
Greinargerð samningahópsins sem fjallar um frjálsa för vinnuafls (EES II) hefur verið birt á heimasíðunni esb.utn.is en í henni er að finna nánari útlistun á viðfangsefni kaflans.