Mikil óvissa er um hvaða stefnu kjaraviðræðurnar munu taka. Þrátt fyrir einstaka fundi eru eiginlegar viðræður um endurnýjun kjarasamninga hvergi komnar á skrið.
Flestir bíða eftir að hreyfing komist á almenna vinnumarkaðinn. „Það er þung undiralda,“ sagði einn af forystumönnum í viðræðunum í gær.
Fátt bendir til annars en að verkfall hefjist í fiskimjölsverksmiðjum á þriðjudaginn og aðgerðarhópur samninganefndar Starfsgreinasambandsins fundaði í gær um aðgerðir til að knýja á um gerð samninga.
Samtök atvinnulífsins bíða eftir hvað ríkisstjórnin ætlar að gera varðandi stjórnkerfi fiskveiða en viðræður um samræmda launastefnu sigldu í strand í seinasta mánuði vegna þess máls. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri samtakanna segir að beðið sé eftir því hvort ríkisstjórnin ætli að draga þennan tappa úr með einhverjum hætti.