Segja afstöðu SA lögbrot

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Miðstjórn ASÍ telur að sú ákvörðun Samtaka atvinnulífsins að tengja saman gerð kjarasamninga við tiltekna niðurstöðu í sjávarútvegsmálum sé ólögleg. Það sé grundvallar skylda atvinnurekenda og samtaka launafólks að gera samninga um kaup og kjör.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði eftir fundinn að miðstjórnin hefði óskað eftir að Samtök atvinnulífsins kæmu til fundar við ASÍ kl. 10 á morgun.

„Ákvörðun Samtaka atvinnulífsins að tengja saman með ólögmætum hætti viðræður um gerð kjarasamninga við tiltekna niðurstöðu Alþingis í sjávarútvegsmálum hefur sett allan vinnumarkaðinn í uppnám og óvissu. Það er skoðun miðstjórnar ASÍ að með þessu komi SA í veg fyrir að hægt verði að hefja markvissa uppbyggingu og vöxt atvinnulífsins, sem leitt gæti til fjölgunar starfa og aukinna tekna. Það skýtur því skökku við að hlusta á forystumenn SA tala um að þeir vilji fara atvinnuleiðina út úr kreppunni, því það er sú leið sem þeir hafa tekið í gíslingu vegna hagsmuna útgerðarmanna. Þetta er tvískinnungur af ódýrasta tagi,“ segir í ályktunar miðstjórnar ASÍ.

Miðstjórn ASÍ minnir á, að það er grundvallarskylda atvinnurekenda og samtaka launafólks að gera samninga um kaup og kjör. „Launafólk krefst þess að gengið verði nú þegar til viðræðna um nýjan kjarasamning til að hefja þá vegferð að endurheimta þann kaupmátt sem tapast hefur. Aðeins þannig er hægt að hefja fyrir alvöru og með fullum krafti atvinnusköpun og uppbyggingu í atvinnu- og efnahagslífi. Það er hin sanna atvinnuleið út úr kreppunni.

ASÍ gerir þá kröfu að SA hefji nú þegar alvöru viðræður um kjarasamninga og mun setjast að því borði í fullri vissu um að SA muni fara að landslögum og standa undir þeirri frumskyldu sinni að ganga til kjarasamninga á grundvelli laga nr. 80/1938 og skv. þeim leikreglum sem þar eru lagðar. Þannig eru lögin í landinu og eftir þeim fer ASÍ. Alþýðusambandið tekur ekki þátt í háskalegum hráskinnaleik SA.

Miðstjórn ASÍ ítrekar að Alþýðusambandið mun nú sem fyrr, gæta bæði heildarhagsmuna almennings gagnvart stjórnvöldum og atvinnurekendum, hvort sem um er að ræða sjávarútvegsmál eða önnur mál sem varða grundvallarhagsmuni almennings, samhliða því að gæta hagsmuna þeirra félagsmanna okkar sem starfa í sjávarútvegi. Þannig mun verkalýðshreyfingin á lögmætan hátt leitast við að tryggja að niðurstaða í sjávarútvegsmálum verði í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar í heild og starfsmanna viðkomandi greina.“
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert