Skoði að hætta sorpbrennslu

Sorpbrennslustöðin Funi á Ísafirði.
Sorpbrennslustöðin Funi á Ísafirði.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur beint þeirri ósk til sveitarstjórna Skaftárhrepps, Hornafjarðar og Vestmannaeyja að þær skoði alla möguleika til að hætta eða draga verulega úr sorpbrennslu þar til niðurstöður frekari rannsókna liggja fyrir.

Fram kemur á vef umhverfisráðuneytisins, að bréf þessa efnis hafi verið send í dag. Sé óski sett fram í kjölfar mælinga á díoxíni úr búfjárafurðum og fóðri sem tekin voru á Vestfjörðum og í Öræfum.

Einnig hefur Svandís ákveðið að hraða afgreiðslu tillagna Umhverfisstofnunar um auknar kröfur í reglugerð til eldri sorpbrennslustöðva. Í þeim yrði meðal annars kveðið á um að sorpbrennslustöðvar, sem enn starfa samkvæmt undanþágu frá árinu 2003, fái afmarkaðan tíma til að uppfylla ströngustu skilyrði fyrir sorpbrennslur en loki ella.

Svandís hefur leitað álits Umhverfisstofnunar á því hvort stofnunin hafi heimild samkvæmt lögum til að stöðva starfsemi umræddra sorpbrennslustöðva þangað til Sóttvarnalæknir hefur lokið við heilsufarsrannsókn á íbúum sveitarfélaganna. Er það álit stofnunarinnar, í samræmi við niðurstöðu fundar með sóttvarnalækni og Matvælastofnun, að ekki sé um bráðahættu að ræða og því sé skilyrðum laga um heimild til skyndilokunar ekki uppfyllt.

Matvælastofnun og Sóttvarnalæknir munu efna til borgarafunda með íbúum sveitarfélaga í nágrenni við sorpbrennslustöðva og verður fyrsti fundurinn haldinn á morgun á Kirkjubæjarklaustri.

Sorporkustöðin á Klaustri. Myndin er tekin af vef Skaftárhrepps.
Sorporkustöðin á Klaustri. Myndin er tekin af vef Skaftárhrepps.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert