Taka sýni við álver og við áramótabrennur

Efri-Engidalur í Skutulsfirði. MS hætti að taka við mjólk frá …
Efri-Engidalur í Skutulsfirði. MS hætti að taka við mjólk frá bænum vegna díoxínmengunar. mynd/bb.is

Umhverfisstofnun ætlar að taka 16 jarðvegssýni á næstunni í þeim tilgangi að mælda díoxín við mögulegar uppsprettur hérlendis. M.a. verða tekin jarðvegssýni úr Hvalfirði í nágrenni Norðuráls og Elkem, Alcoa í Reyðarfirði, við álver Rio Tinto í Straumsvík, við Sementsverksmiðjuna á Akranesi, hjá   Als - álvinnslu og einnig verða tekin jarðvegssýni þar sem áramótabrennur eru haldnar árlega. 

Umhverfisstofnun hefur lagt fram áætlun um mælingar á díoxín í jarðvegi í nágrenni mögulegra uppsprettna hérlendis. Rætt hefur verið við fagaðila til að annast mælingarnar en lögð er áhersla á að þær verði gerðar sem fyrst. Fimm jarðvegssýni verða tekin í Skutulsfirði og nágrenni og fimm önnur verða tekin hjá öðrum sorpbrennslustöðvum hér á landi.

Á samráðsfundi Matvælastofnunar, Sóttvarnarlæknis og Umhverfisstofnunar var ákveðið að haldnir yrðu borgarafundir í nágrenni við eldri sorpbrennslur á Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri og í Vestamannaeyjum þar sem fulltrúar Matvælastofnunar, Sóttvarnarlæknis og Umhverfisstofnunar fari yfir stöðu mála og næstu skref. Fundirnir verða auglýstir á næstunni en fyrsti fundur er á Kirkjubæjarklaustri á morgun (10. febrúar) kl. 18 og verður haldinn í félagsheimilinu Kirkjuhvoli.

Mælingar Matvælastofnunar á búfjárafurðum leiddu í ljós að sýni mældust yfir mörkum fyrir díoxín í Skutulsfirði en ekki á Svínafelli þar sem starfrækt er eldri sorpbrennsla. Niðurstöður úr díoxínmælingum á mjólkursýnum úr nærliggjandi fjörðum, Álftafirði, Önundarfirði og Súgandafirði eru í lagi og það bendir eindregið til þess að um staðbundna díoxínmengun er að ræða.

Umhverfisstofnun hefur lagt mat á hverjar séu helstu hugsanlegu uppsprettur díoxíns á Íslandi en ekki eru til sértækar mælingar á díoxín í umhverfinu. Matið er byggt annars vegar á mælingum á útblæstri frá sorpbrennslum og hins vegar alþjóðlegum losunarstöðlum fyrir mengandi starfsemi og opnar brennslur (s.s. áramótabrennur). Mælingarnar eru gerðar til þess að fá upplýsingar um mögulega uppsöfnun á díoxíni svo hægt sé að leggja mat á hugsanlega áhrif á lífríki og umhverfið. Stofnunin telur nauðsynlegt að staða mála hvað þetta varðar sé skýr og leggur því í viðamiklar mælingar á næstu vikum.

Díoxín er þrávirkt lífrænt efni sem getur valdið heilsutjóni í dýrum og mönnum. Rannsóknir benda til þess að áhrifin séu minni í mönnum en tilraunadýrum. Rúm 90% af því díoxíni sem maðurinn fær í sig kemur í gegnum fæðu, sérstaklega úr feitum mat, s.s. mjólkurvörum, kjöt- og fiskmeti. Talið er að um 2-10% af díoxíni í mönnum megi rekja til innöndunar.


Losun díoxíns á Íslandi er minni en hjá nágrannaþjóðum okkar. Á síðastliðnum 20 árum hefur dregið hratt úr losun díoxíns í heiminum og minnkaði losun í ESB-27 ríkjunum úr 11 kg árið 1990 niður í rúm 2 kg árið 2008. Ísland losaði um 11 grömm árið 1990 en um 4 g árið 2008

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert