Talað til útgerðar eins og glæpamanna

Af 20 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum í aflamarki eru aðeins tvö yngri en 30 ára. „Þetta eru þau fyrirtæki sem lifðu af, sem keyptu hin sem hættu og þetta eru þau fyrirtæki sem fá á sig vöndinn,“ segir Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík. Nú sé talað til útgerðarmanna eins og glæpamanna.

Pétur fjallaði um mikilvægi stöðugleika í sjávarútvegi á fundi Samtaka atvinnulífsins um atvinnumál og stöðu kjaraviðræðna í dag.

Pétur sagði að umrædd 20 sjávarútvegsfyrirtæki gerðu út 126 skip, þau veiddu  85% kvótans og væru með 4. 355 manns í vinnu.  Langflest þessara grónu fyrirtækja væru 40-50 ára gömul og mörg þeirra væru 70-100 ára gömul. Þau hefðu haft höfuðstöðvarnar á sama stað í gegnum tíðina og haldist vel á starfsfólki. Síðustu áratugina hafi þau lifað af alla þá óáran sem yfir sjávarútveginn hefur dunið.

Pétur sagði að þrátt fyrir ótrúlega orðræðu, niðrandi umræðu, uppnefningar, stanslausar tilfærslur á aflaheimildum, sem næmi um þriðjungi þorskveiðiheimildanna, þá hefðu Íslendingar sigrað á keppnisvelli sjávarútvegsins. 

Nú væri hins vegar róið að því öllum árum að skapa óstöðugleika. Markmiðin væru óljós sem leiddi til ómarkvissrar umræðu og allar ákvarðanir væru teknar til skamms tíma. Umræðan snérist um að kerfið sé svo vont af því að það skapi hagnað. „Þeir sem gagnrýna kerfið hvað harðast vilja bæði veiða meira og skattleggja meira,“ sagði Pétur.

Pétur sagði að niðurstaða sáttanefndarinnar í sjávarútvegi sl. haust hefði verið ótrúleg, og mun betri en menn þorðu að vona um næstu skref við stjórnun veiðanna. En stjórnvöld ætli greinilega að fara aðra leið. Þrátt fyrir mikilvægi málsins væru samskipti forystumanna ríkisstjórnarflokkanna við sjávarútveginn mjög dapurleg og nánast engin.

„Þegar greinin veit hvorki hvernig tekjuhliðin né gjaldahliðin verður á næstu árum, hvernig í ósköpunum er þá hægt að ætlast til að menn geti samið um kaup og kjör? Það er óskiljanlegt með öllu,“ sagði hann. „Við höfum valið langtímahugsun, varkárni í nýtingu fiskistofna og samþættingu veiða og vinnslu, sem er ekki minna virði en kvótakerfið,“ sagði Pétur.

Sláum á úrtöluraddirnar

„Það sem er einkennilegt í allri þessari umræðu er að það sem einu sinni þótti dygð og útsjónarsemi og staðfesta, að fæðast inn í sjávarútveg og vera í honum, og lifa af, þetta er bara orðinn glæpur. Það er talað til okkar eins og glæpamanna. Menn byggja upp ákveðna grímu gagnvart þessu en nú á í alvöru að kippa fótunum undan þessum fyrirtækjum,“ sagði Pétur.

„Það var stolt okkar áður fyrr að vera í þessu. Það var stolt okkar að lifa þetta af en það er nánast eins og glæpur í dag. Það er kominn tími til að við sem eigum í þessum fyrirtækjum stöndum hrein og stolt og berjumst fyrir framgangi þeirra næstu  20-30 árin. Sláum á þær úrtöluraddir sem vilja okkur feg,” sagði Pétur. ,,Það er kominn tími til að við sýnum aðeins úr hverju við erum gerð.“

Síðustu áratugina hafa þau lifað af alla þá óáran sem yfir sjávarútveginn hefur dunið. Kvótasetningin var stærsta takmörkun sem fyrirtækin gengu í gegnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert