Þórður Friðjónsson látinn

Þórður Friðjónsson.
Þórður Friðjónsson.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, er látinn, 59 ára að aldri.  Þórður lést á sjúkrahúsi í borginni Friedrichshafen í Þýskalandi í gær eftir skammvinna baráttu við krabbamein.

Samkvæmt upplýsingum frá fjölskyldu Þórðar var hann á ferðalagi með fjölskyldunni þegar honum versnaði snögglega af veikindum sínum.

Þórður fæddist í Reykjavík 2. janúar árið 1952. Foreldrar hans voru Kristín Sigurðardóttir og Friðjón Þórðarson alþingismaður og ráðherra.

Þórður gegndi starfi forstjóra NASDAQ OMX á Íslandi frá því í febrúar 2002. Þar áður var hann forstjóri Þjóðhagsstofnunar um 15 ára skeið en á því tímabili gegndi Þórður einnig stöðu ráðuneytisstjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu frá apríl 1998 til september 1999, í leyfi frá Þjóðhagsstofnun. Þórður gegndi jafnframt stöðu efnahagsráðgjafa forsætisráðherra í stjórnartíð Gunnars Thoroddsen og Steingríms Hermannssonar. Hann var stundakennari og aðjúnkt við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands til fjölda ára.

Þórður sat í stjórn Viðskiptaráðs frá árinu 2008 og var burðarás í starfi samtakanna. Þórður var enn fremur stjórnarformaður Framkvæmdasjóðs Íslands til margra ára. Þá ritaði Þórður fjölmargar greinar í dagblöð, sérrit á borð við Vísbendingu og bækur.

Þórður var fyrir Íslands hönd m.a. í hagstjórnarnefnd OECD og í bankaráði  Evrópubankans. Jafnframt var Þórður stjórnarformaður NOPEF (Nordic Project Fund) og formaður samstarfsnefndar íslenskra stjórnvalda, Landsvirkjunar, Norsk Hydro og íslenskra fjárfesta um byggingu álvers við Reyðarfjörð.  Þórður var með M.A. gráðu í hagfræði frá Queen's háskóla í Kanada og cand.oecon-gráðu frá Viðskiptadeild Háskóla Íslands. Enn fremur sótti Þórður stjórnendanám við Harvard háskóla í Boston.

Þórður var kvæntur Ragnheiði Agnarsdóttur og áttu þau saman Auði Ólöfu og Óliver sem Ragnheiður á úr fyrra sambandi.

Þórður lætur einnig eftir sig fjögur uppkomin börn, Sigríði, Steinunni Kristínu, Friðjón og Harald og ellefu barnabörn. Þórður var áður kvæntur Þrúði G. Haraldsdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert