Þriggja bíla árekstur á Fjarðarheiði

Þriggja bíla árekst­ur varð á Fjarðar­heiðinni rétt fyr­ir klukk­an sjö í kvöld. Að sögn lög­regl­unn­ar á Eg­ils­stöðum er þar afar hált. Flutn­inga­bíll, með tengi­vagn, komst ekki upp brekk­una, hann sat fast­ur og lokaði báðum ak­rein­um.

Fólks­bíll, sem kom úr gagn­stæðri átt, gat stöðvað í tæka tíð. Skömmu síðar kom ann­ar bíll, hon­um tókst ekki að stöðva og ók aft­an á fólk­bíl­inn með þeim af­leiðing­um að hann kastaðist á flutn­inga­bíl­inn.

Ökumaður, sem kom aðvíf­andi, stöðvaði bif­reið sína og steig út úr henni til að at­huga hvort hann gæti orðið til aðstoðar. Ekki vildi bet­ur til en svo að bíll­inn hans rann í hálk­unni og hafnaði utan veg­ar.

Eng­in al­var­leg slys urðu á fólki, en bíl­arn­ir eru mikið skemmd­ir. 

Lög­regl­an á Eg­ils­stöðum vill koma þeirri ábend­ingu á fram­færi að flug­hált sé á Fjarðar­heiðinni og hvet­ur þá sem leið eiga þar um að sýna ýtr­ustu aðgát.



mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert