Allar breytingar verða rökstuddar

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Eggert Jóhannesson

Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar segja að það hafi ávallt verið leiðarljós starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar grunnskóla, leikskóla og frístundaheimila, að hafa samtalið um hugmyndir að endurskipulagningu sem víðtækast. Allar breytingar verði rökstuddar.

Í bókun frá meirihlutanum segir að það leiði eðlilega af sér mikið umtal og sterk viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. „Allar breytingar verða rökstuddar og sýnt fram á fjárhagslegan ávinning. Meginmarkmið þessa viðkvæma og vandasama verkefnis er að standa vörð um faglegt skóla- og frístundastarf en skoða allar færar leiðir til að skoða skipulag skóla- og frístundastarfs. Líklegast verða aldrei allir á eitt sáttir um aðferð til að undirbúa breytingar. Fundir í hverfum með fulltrúum foreldra og starfsfólks úr öllum skólum, bæði leik- og grunnskólum og frístundaheimila, voru ekki síst ætlaðir til upplýsingagjafar og sem kveikja að frekari umræðu. Vinnu hópsins er ekki lokið, útreikningar liggja fyrir á næstu dögum og næstu skref verða kynnt eins vel og unnt er fyrir starfsfólki og foreldrum. Mikilvægt er að árétta að hagræðing er á miðlæga stjórnsýslu á árinu 2011 og vinna við útfærslu á þeirri hagræðingarkröfu stendur sem hæst.“

Í bbókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks segir að ljóst virðist vera að eitthvað í þessari vinnu hafi farið úrskeiðis ef marka má þau miklu mótmæli sem borist hafa, jafnt frá starfsfólki skólanna, sem og foreldrum í borginni. „Í þeim mótmælum er sagt að lítið samráð hafi verið um málið, upplýsingar ófullnægjandi og ónógt tillit tekið til sjónarmiða þeirra sem gleggst til þekkja. Réttmæt gagnrýni er einnig sett fram um það að samhliða svo umfangsmiklum breytingum verði að eiga sér stað samskonar hagræðing í yfirstjórn borgarinnar og almennar stjórnkerfisbreytingar skuli vera hluti af því. Borgarráðsfulltrúar ítreka mikilvægi þess að vinnubrögðin í kringum þessa vinnu séu vönduð, enda augljóst að ekki verður ráðist í slíkar breytingar í skólum borgarinnar nema með öflugri þátttöku starfsmanna og foreldra. Slíkt samráð mun ekki flækja málið, heldur tryggja farsæla lausn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert