Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Eið Smára Guðjohnsyni í vil í meiðyrðamáli, sem hann höfðaði á hendur ritstjórum og blaðamanni DV. Samkvæmt dómum eiga blaðamennirnir að greiða Eið 400 þúsund krónur í miskabætur og hver um sig 150 þúsund króna sekt í ríkissjóð.
Málið höfðaði Eiður á hendur Inga Frey Vilhjálmssyni, blaðamanni DV, og ritstjórunum Reyni Traustasyni og Jóni Trausta Reynissyni vegna umfjöllunar DV um fjárhagsmálefni sín og taldi brotið gegn friðhelgi einkalífsins. Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni, að umfjöllun DV um Eið hafi verið ómálefnaleg og upplýsingar um fjármál hans hafi ekki átt erindi við almenning.
Umfjöllunin um Eið Smára birtist í
desember árið 2009. Meðal þess sem þar kom fram var að Eiður skuldi um
1,2 milljarða króna til Banque Havilland í Lúxemborg, áður Kaupþings í
Lúxemborg, og Íslandsbanka, áður Glitnis. Einnig að hann hafi skuldsett
sig mikið vegna fjárfestingaverkefna en fjárfestingarnar ekki skilað
gróða. Ennfremur að Eiður hafi átt að fá um þrjátíu milljónir króna í
mánaðarlaun hjá franska knattspyrnuliðinu Mónakó.
Lögmaður Eiðs
Smára hélt því fram að fjárhagsmálefni Eiðs væru hans persónulegu
málefni sem ekkert erindi ættu til almennings. Um hefði verið að ræða
upplýsingar innan úr bankakerfinu, upplýsingar sem venjulega færu leynt.
Verjendur
Inga Freys, Reynis og Jóns Trausta sögðu hins vegar að Eiður Smári yrði
að sætta sig við umfjöllun um málefni sín, fjármál hans hefðu ítrekað
verið í fjölmiðlum þegar um hefði verið að ræða velmegun hans og
verðmæti. Hann þyrfti því einnig að sætta sig við umfjöllun þegar halla
færi undan fæti. Jafnframt sögðu þeir meginástæðu
umfjöllunarinnar vera þá lánafyrirgreiðslu sem Eiður Smári fékk hjá
íslenskum bönkum, s.s. Glitni banka og Kaupþingi í Lúxemborg.
Almenningur eigi rétt á slíkum upplýsingum, upplýsingum um lánveitingar
íslenskra banka til óábyrgra fjárfestinga; enda hafi
fjárfestingaverkefnin endað með tapi.