Héraðsdómur Reykjavíkur segir í dómi sínum að Eiður Smári Guðjohnsen eigi ekki að þurfa þola nærgöngulli umfjöllun um einkamál sitt en almennt gerist um fólk. Umfjöllun DV hafi aðeins á lítinn hátt tengst störfum hans sem knattspyrnumanns og aðrar upplýsingar áttu ekki erindi við almenning.
Verjendur Inga Freys Vilhjálmssonar og ritstjóra DV, Reynis Traustasonar og Jóns Trausta Reynissonar, héldu því fram að nægar ástæður hefðu verið fyrir hendi til að réttlæta umfjöllun DV um fjárhagsleg málefni Eiðs Smára þar sem skrif blaðsins hafi verið til þess fallin að upplýsa almenning um hvernig lánveitingum gömlu bankanna hafi verið háttað og um viðskiptahætti auðmanna og stórfyrirtækja í aðdraganda bankahrunsins.
Á þetta féllst dómurinn ekki og segir að ekki verði séð að umfjöllunin tengist á nokkurn hátt hinu svokallaða bankahruni eða að lántaka Eiðs Smára og skuldastaða hans hafi með það að gera eða tengist meintri spillingu í bankakerfinu. Þá sé óumdeilt að Eiður Smári hafi aldrei gefið tilefni til slíkrar umfjöllunar með því að ræða við fjölmiðla um fjármál sín og verið mótfallin slíkri umfjöllun.
Athygli vekur að í dómnum eru ritstjórar DV sagðir bera ábyrgð á birtingu efnis á vefsvæðinu dv.is, þar sem ekki er nafngreindur höfundur. Í dómnum segir að óumdeilt sé að þeir beri ábyrgð á efni í dagblaðinu DV þar sem ekki er nafngreindur höfundur, í samræmi við 3. mgr. 15. gr. prentlaga.
Bendir dómurinn á að það ákvæði taki ekki til vefmiðla og ekki sé til að dreifa lagaákvæðum um slík tilvik. Þá segir að telja verði að efnislega sé um sambærileg tilvik að ræða „enda staðreynd að dagblöð eru gefin út á vefmiðlum. Með lögjöfnun frá 15. gr. [prentlaga] beri því að fallast á að þeir beri á sama hátt ábyrgð á birtingu efnis á vefsvæðinu www.dv.is, þar sem ritað er undir ritstjórn, og því enginn höfundur tilgreindur.“
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi Inga Freys, hélt því fram fyrir dómi að ekki væri hægt að beita lögjöfnun í þessum tilviki, þar sem fullkomin lögjöfnun sé áskilin til að hægt sé að fella refsiábyrgð á borgara. Hann benti á að í 1. gr. prentlaga sé skilgreint hvað teljist rit samkvæmt lögunum og í 2. gr. segi að prentlögin gildi einungis um rit sem gefin hafa verið út. Þá er í 9. gr. skilgreining á blöðum og tímaritum.
Þá sé almennt viðurkennt við lögskýringu að sett lagaákvæði sem á einhvern hátt séu íþyngjandi skuli túlka þröngt eða samkvæmt orðanna hljóðan en rýmkandi lögskýring komi ekki til greina. „Ákvæði 15. gr. laga um prentrétt [eru] verulega íþyngjandi ákvæði sem taki bæði til refsi- og fébótaábyrgðar og [tæma] þar með þau hugsanlegu álitaefni sem geti verið uppi í þessu máli.“ Því geti 15. gr. prentlaga aðeins tekið til þeirra miðla sem minnst sé á með berum orðum, þ.e. blaða og tímarita.
Einnig benti Vilhjálmur á að lög um prentrétt geti ekki átt við um birt efni á netinu vegna séreðlis þess og þeirra tæknimöguleika sem það hafi upp á bjóða, s.s. varðandi birtingu og eyðingu efnis.