Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að hún muni eftir dóm Hæstaréttar staðfesta aðalskipulag Flóahrepps. Hún segir að umhverfisráðuneytið þurfi að skoða hvort lagaumhverfi varðandi þátttöku framkvæmdaaðila í gerð skipulags sé nægilega skýrt.
Svandís sagði að það hefði verið ágreiningur milli umhverfisráðuneytisins og Flóahrepps varðandi það hverjir mættu greiða fyrir skipulag. „Það er ekki mjög skýrt kveðið á um þetta í lögum sem þá voru í gildi. Það sagði að sveitarfélagið eða skipulagssjóður ætti að greiða kostnað við skipulag. Það sagði ekkert um að það mættu ekki vera aðrir aðilar eða að það mættu vera aðrir aðilar. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þar sem þetta væri ekki bannað þá mættu aðrir greiða fyrir skipulag og Hæstiréttur tekur undir það. Það er mikilvægt að það sé úr þessu skorið. “
Alþingi breytti skipulagslögum í desember. Þar segir að aðrir en sveitarfélög og skipulagssjóður megi greiða fyrir skipulag ef um stórar framkvæmdir er að ræða sem kalli á mikil útgjöld. Alþingi breytti ákvæðinu um þetta atriði frá því frumvarpi sem umhverfisráðherra lagði fyrir þingið.
Svandís sagði að ráðuneytið þyrfti að fara yfir dóminn og skoða hvort lagaumhverfi sé nægilega skýrt fyrir sveitarfélögin sem bera ábyrgð á skipulagsvinnunni. Eitt af því sem þyrfti að skoða er hvort framkvæmdaaðilar gætu tekið þátt í hverju sem er eða hvort á því væru einhverjar takmarkanir.