Neitaði lækni um námsferð

Félagsdómur hefur staðfest ákvörðun Landspítalans sem hafnaði námsleyfisumsókn deildarlæknis sem starfar á spítalanum. Læknafélag Íslands höfðaði málið á þeirri forsendu að með neituninni hefði spítalinn brotið kjarasamning félagsins.

Málið snýst um umsókn læknisins, sem starfar á svæfinga- og gjörgæsludeild Landspítala, um að fara í sex daga ferð á málþing svæfingarlækna í Bandaríkjunum. Framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs LSH hafnaði umsókninni og vísað til nýrra verklagsreglna frá nóvember 2009.  Hann taldi að umsóknin uppfyllti ekki það skilyrði kjarasamninga að vera „tengd sérstökum rannsóknar- eða vísindaverkefnum sem hann vinnur að og tengist ennfremur starfssviði og verkefnum viðkomandi deildar“. 

Læknafélagið taldi að ákvæði kjarasamningsins kvæði á um skýran rétt læknis til námsferðar uppfyllti hann skilyrði til þess.

Ákvæði kjarasamningsins sem deilt var um hljóðaði svona: „Kandidat/læknir án sérfræðileyfis sem ráðinn er til 1 árs eða lengur á sömu deild, skal hafa rétt til 7 daga námsferðar fyrir hverja 12 mánuði enda sé námsferðin tengd sérstökum rannsóknar- og vísindaverkefnum sem hann vinnur að og tengist ennfremur starfssviði og verkefnum viðkomandi deildar. Leita skal umsagnar yfirlæknis viðkomandi deildar áður en leyfi til slíkrar ferðar er veitt.“

Í niðurstöðu félagsdóms segir að í ákvæðinu komi fram það skilyrði að námsferð sé tengd sérstökum rannsóknar- og vísindaverkefnum sem umsækjandi vinnur að. Í umsókn læknisins sé rannsóknarverkefna í engu getið, enda liggi ekki fyrir að þær rannsóknir sem umsækjandi hafði unnið að tengdist sérstaklega því námskeiði sem sótt var um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka