Norðurskel ehf. í Hrísey hefur verið úrskurðuð gjaldþrota og fyrirtækinu lokað en það hefur verið leiðandi í þróun kræklingaræktar hér á landi. Óljóst er hvort félagið verður endurreist en áhugi er sagður á því. Þetta kemur fram í Akureyrarblaðinu Vikudegi sem kom út í dag.
Fyrirtækið, sem stofnað var árið 2000, hefur verið í greiðslustöðvun síðan í nóvember, reynt var að endurskipuleggja fjármálin og fá nýja fjárfesta að félaginu en það tókst ekki.
Bláskel frá Norðurskel hefur verið á markaði hér heima og fyrirtækið hefur líka selt töluvert úr landi. Starfsmenn voru fimm.
Árni Pálsson hefur verið skipaður skiptastjóri þrotabúsins, að sögn Vikudags.