Nýjar reglur um vigtun afla

Löndun í Ólafsvík.
Löndun í Ólafsvík. Rax / Ragnar Axelsson

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið vinnur nú að nýjum reglum um vigtun og skráningu sjávarafla. Almennur kynningarfundur hagsmunaaðila um málið var haldinn í ráðuneytinu á þriðjudag þar sem aðilar í greininni komu sínum hugmyndum og athugasemdum á framfæri.


Með nýjum reglum er gert ráð fyrir að allur afli verði framvegis vigtaður á hafnarvog og þá verður skerpt á reglum um slægingarstuðul og íshlutfall. Uppsjávarafli, s.s. síld og loðna verða þó sem fyrr undanþegin vigtun á hafnarvog enda algengt að slíkum afla sé dælt beint úr veiðiskipi í vinnsluhús.


Í tilkynningu frá sjávarútvegsráðuneytinu segir að fundurinn hafi verið vel sóttur og fundarmenn verið sammála um að ágallar væru á núverandi kerfi. Fulltrúar ráðuneytisins lýstu því yfir að það stæðist ekki þær kröfur sem gerðar væru m.t.t. nákvæmni og gæða. Fundargestir voru margir gagnrýnir á þær hugmyndir sem lagðar voru fram af hálfu ráðuneytisins og lögðu áherslu á að áframhaldandi samráði yrði haft um málið áður en til ákvörðunar kæmi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert