Fréttaskýring: Prófmál um ummæli á netinu

Athugasemdakerfi netmiðla kunna að taka breytingum fari meiðyrðamál fjölskyldu, sem býr við Aratún í Garðabæ, fyrir dómstóla. Fjölskyldan krafði sjö einstaklinga um opinbera afsökunarbeiðni og miskabætur vegna ærumeiðandi ummæla sem þeir létu falla í athugasemdum við frétt sem birtist á fréttavefnum dv.is. Tveir þeirra hafa þegar beðist afsökunar og samþykkt bótakröfuna. Stefnur á hendur öðrum verða að öllum líkindum birtar í næstu viku.

Burtséð frá atvikum í ofangreindu máli er athyglisvert að um er að ræða fyrstu mál sinnar tegundar, þ.e. sem höfðuð eru á þessum grundvelli. „Þarna verður bæði eiganda vefsvæðisins, þ.e. rétthafa lénsins sem er DV ehf., og viðkomandi einstaklingum sem viðhafa ummælin stefnt,“ segir hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson en hann gætir hagsmuna fjölskyldunnar. Þetta er því prófmál um þessi tilteknu atriði, þar sem menn viðhafa ummæli undir fullu nafni í athugasemdakerfi og á ákveðnum vefmiðli.

Útbreiðslan sjálfstætt brot

Vilhjálmur segir að ef málin fari fyrir dómstóla verði þau mjög áhugaverð út frá lögfræðilegu sjónarhorni. „Það er auðvitað refsivert að viðhafa ærumeiðandi aðdróttun og birta hana opinberlega, en svo er þetta líka spurning um dreifingu og útbreiðslu ærumeiðinganna, sem er sjálfstætt brot.“

Vilhjálmur segir löngu tímabært að dómstólar kveði upp úr í málum sem þessum enda kominn tími á að komið sé böndum á ærumeiðandi aðdróttanir og gífuryrði í almennri umræðu á vefnum.

Hann er á þeirri skoðun að falli dómur skjólstæðingum hans í hag – fari málin fyrir dóm – geti það einnig breytt því hvernig athugasemdakerfi eru sett upp, og þá hugsanlega tekin upp einhvers konar ritskoðun á ummælum áður en þau eru birt.

„Það á ekki síst við í þessu tilviki þar sem eigandi vefsvæðisins hefur þann fyrirvara að áskilja sér rétt til að eyða ærumeiðandi ummælum. Út frá því hlýtur að mega gagnálykta, að þeir telji að þau ummæli sem fái að standa séu ekki ærumeiðandi.“ Hann segist telja að það breyti ekki máli hversu lengi ærumeiðandi ummæli fái að standa enda sé brotið framið um leið og þau birtist.

Höfundum ummælanna verður stefnt á grundvelli almennra sönnunarreglna og þurfa þeir að sýna fram á það með einhverjum hætti að þau stafi ekki frá þeim. Einnig verður DV ehf. stefnt og þá á grundvelli þess að það er eigandi vettvangsins þar sem ummælin voru látin falla og ber þar með ábyrgð á birtingu og dreifingu þeirra. Vilhjálmur segir að í stefnu verði gert ráð fyrir sameiginlegri ábyrgð og því er DV einnig stefnt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert