Fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins settust klukkan 10 í morgun á fund í húsnæði ríkissáttasemjara þar sem fjallað er um kjarasamninga en ASÍ krefst þess að gengið verði nú þegar til viðræðna um nýjan kjarasamning.
Ástandið á vinnumarkaði er orðið eldfimt, verkfall blasir við í fiskimjölsverksmiðjum og aðgerðahópar Starfsgreinasambandsins ráða ráðum sínum.
Bæði samninganefnd ASÍ og miðstjórn fóru yfir stöðuna í gær og sendi miðstjórnin frá sér ályktun þar sem sú ákvörðun Samtaka atvinnulífsins er sögð ólögmæt að tengja viðræður um gerð kjarasamninga saman við tiltekna niðurstöðu Alþingis í sjávarútvegsmálum. Þetta hafi sett allan vinnumarkaðinn í uppnám.
„Það eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar atvinnurekenda og stéttarfélaga um að gera kjarasamninga. Það er ekki hægt að neita því að gera kjarasamning á grundvelli pólitískra krafna. Þetta má ekki skv. stjórnarskrá vinnumarkaðarins,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, við Morgunblaðið í dag.