Veðurstofan varar við stormi sunnan- og vestanlands undir kvöld og ofsaveðri, allt að 30 metrum á sekúndu í nótt og í fyrramálið.
Á höfuðborgarsvæðinu er spáð suðaustan 15-23 m/s í kvöld en 18-28 m/s seinni part nætur og í fyrramálið.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir á vef sínum að þessi lægð verði bæði dýpri og heldur nærgöngulli en sú sem gekk yfir landið á þriðjudag.
Ætla megi að suðvestanlands nái vindur hámarki eftir um sólarhring eða á milli kl. 6 og 9 í fyrramálið. Vindáttin verði meira suðaustlæg og það hafi í för með sé m.a. að vindur nái sé frekar á strik á höfuðborgarsvæðinu, svo ekki sé talað um Suðurnes. Einnig verði mjög hvasst á Snæfellsnesi en vissulega verði slæmt veður um land allt þegar kemur fram á daginn.