Starfsmaður Isavia sem Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær að hefði beitt samstarfskonu sína kynferðislegri áreitni er kominn í frí. Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að hann verði í fríi þangað til annað verði ákveðið.
Hjördís sagði að þetta hefði verið sameiginleg niðurstaða starfsmannsins og stjórnenda Isavia.
Hjördís segir að ekki hafi verið ákveðið hvort dómi héraðsdóms verði áfrýjað til Hæstaréttar. Verið sé að fara yfir dóminn.
Konan sem höfðaði málið er enn starfsmaður Isavia, en hún hefur ekki verið við störf hjá fyrirtækinu í marga mánuði. Hjördís sagði að ekki lægi fyrir hvort hún kæmi aftur til starfa. Málið væri til skoðunar hjá fyrirtækinu.