„Þetta er vorboði, heldur betur,“ sagði Sigurgeir Jónasson, ljósmyndari Morgunblaðsins og fuglaáhugamaður, í Vestmannaeyjum.
Hann sá í gær að svartfuglinn var sestur upp í Ystakletti. Sigurgeir var búinn að fylgjast með fuglabælunum og í gær fylltust allir kórar og holur í Ystakletti.
„Þetta er langmest langvía. Ég sá hann fyrst á litlum syllum ofan við við Klettshelli. Svo kíkti ég á austurhliðina á Ystakletti og þar var fugl í öllum fallegu stóru kórunum og koppunum. Búinn að koma sér fyrir á hverri einustu syllu.“
Svo virðist sem svartfuglinn fylgist vel með loðnunni og taldi Sigurgeir þetta gefa til kynna að stutt væri í að loðnugangan næði til Vestmannaeyja.