Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, mótmælir áformum meirihlutans í Reykjavík að sameina grunn- og leikskóla í borginni.
„Þessi vinnubrögð meirihlutans eru til marks um óskýra forgangsröðun og handahófskennda nálgun gagnvart viðfangsefnum borgarinnar. Fulltrúar Vinstri grænna í ráðum og nefndum borgarinnar hafa ítrekað bent á mikilvægi þess að einfalda stjórnkerfið með hagræðingu og aukna nærþjónustu að leiðarljósi – enda séu slíkar breytingar forsenda fyrir öðrum ákvörðunum. Meirihlutinn hefur þrátt fyrir það kosið að setja næstum hvern einasta starfsstað borgarinnar í uppnám með tilheyrandi afleiðingum fyrir borgarbúa án þess að sýnt hafi verið fram á samhengi mögulegra breytinga við fyrirhugaðar stjórnkerfisbreytingar,“ segir í bókun sem Sóley lagði fram í borgarráði í dag.