Grunnlífeyrir er 29.294 kr. á mánuði. Frítekjumark vegna hans er 214.602 kr., þá byrjar hann að skerðast og fellur niður við um 332.000 kr. á mánuði.
Helgi K. Hjálmsson, formaður Landssambands eldri borgara, gagnrýndi skerðingu grunnlífeyris í samtali við Morgunblaðið í gær og Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, benti á að grunnlífeyrir hefði verið heilagur til 2009.
1. júlí 2009 voru gerðar þær breytingar á lögum um almannatryggingar að lífeyrissjóðstekjur hefðu áhrif á útreikning grunnlífeyris og var frítekjumarkið sett við 214.602 kr. „Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í ríkisfjármálum er nauðsynlegt að telja þessar tekjur til tekna við útreikning bóta,“ sagði í fylgiskjali þáverandi félags- og tryggingamálaráðuneytis, nú velferðarráðuneytis, með breytingunum.