Sigrún Valsdóttir, sem er búsett í Kaíró höfuðborg Egyptalands, segir að í dag hafi verið stigið stórt og mikilvægt skref í átt að lýðræðislegu stjórnarfari í Egyptalandi, þegar Mubarak, forseti landsins, tilkynnti afsögn sína.
„Ég held að fólk hafi alls ekki átt von á að Mubarak myndi segja af sér í dag. Allir bjuggust við því í gær, þegar hann hélt þetta langa ávarp í sjónvarpinu,“ sagði Sigrún í samtali við mbl.is
Hún segir að tilkynningin um afsögn Mubaraks hafi verið örstutt, aðeins nokkrar sekúndur. „Ég missti af henni, ég var að skipta á milli stöðva.“
Að sögn Sigrúnar hafa miklar vangaveltur verið í Egyptalandi síðan í gær um hvers vegna sjónvarpsávarpi Mubaraks í gærkvöldi var seinkað ítrekað. „Margir telja að það sé vegna ágreinings á milli Mubaraks, hersins og Suleimans varaforseta. En það hefur ekki verið staðfest.“
Sigrún segir flesta telja herráðið vera besta kostinn. „Hefði Suleiman fengið völdin, þá hefðu mótmælin haldið áfram. Fólki finnst hann vera eins og Mubarak númer tvö; hann talar niður til þjóðarinnar og það er alveg klárt að fólkið hefði aldrei sætt sig við hann. Annar möguleiki var að forseti þingsins tæki við völdum, en fólkið hefði heldur ekki sætt sig við það,“ segir Sigrún.
„Fólk ber almennt mikla virðingu fyrir hernum, þrátt fyrir að Mubarak og allir helstu ráðamenn landsins hafi komið úr röðum hersins. En fólki finnst að herinn sé á þeirra bandi og treystir hernum. Svo skiptir líka máli að þetta er herráð, en ekki einhver einn sem er að fara að taka við völdum. En það á eftir að koma í ljós hvernig þetta verður. “
„Þetta er bara fyrsta skrefið í átt að lýðræði og nú þarf að byggja upp nýtt kerfi. En þetta er stórt og mikilvægt skref sem þurfti að stíga þannig að hægt væri að halda áfram með frekari umbætur,“ segir Sigrún.