Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra afhjúpaði í dag minningarskjöld í Vilníus, höfuðborg Litháens, um viðurkenningu Alþingis á sjálfstæði landsins.
„Til Íslands, sem óttalaust viðurkenndi lýðveldið Litháen, fyrst allra ríkja þann 11. febrúar 1991“, segir á skildinum, sem utanríkisráðherra afhjúpaði ásamt Audronius Azubalis utanríkisráðherra Litháen í viðurvist Vytautas Landsbergis fv. forseta litháíska þingsins og margra annarra sem leiddu sjálfstæðisbaráttu Litháens í upphafi tíunda áratugarins.
Í ávarpi við athöfnina sem fór fram við Íslandsstræti í miðborg Vilnius, lýsti ráðherrann stolti Íslendinga yfir að hafa getað lagt sitt lóð á vogarskálarnar í sjálfstæðisbaráttu Litháa og lagði áherslu á að vináttuböndin sem voru bundin fyrir 20 árum væru enn afar traust. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.