Uppsögn Jónasar Ingimundarsonar hjá Kópavogsbæ hefur verið dregin til baka og hefur hann fallist á að starfa áfram sem tónlistarráðunautur bæjarins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
„Þegar skipulagsbreytingar hjá stjórnsýslu bæjarins voru ræddar og samþykktar stóð til að færa starf tónlistarráðunautar undir lista- og menningarsjóð. Jafnframt átti að semja um starfslok í fullu samráði við Jónas í ljósi þess að hann verður 67 ára í vor.
Engu að síður voru þau mistök gerð að Jónasi var afhent uppsagnarbréf fyrir viku. Þau mistök eru hörmuð og Jónas auðmjúklega beðinn afsökunar á því,“ segir í tilkynningunni.
Þar er einnig vitnað í Guðríði Arnardótturr, formann bæjarráðs Kópavogs sem segir:
„Nú telja sjálfsagt margir að viðbrögð okkar séu til komin vegna þeirrar hörðu gagnrýni sem við höfum fengið á okkur undanfarna daga. Það verður bara að hafa það. Okkur skiptir mestu að þessi mistök séu leiðrétt og að Jónas sé beðinn afsökunar. Við ætlumst ekki til, að hvorki almenningur né Jónas fyrirgefi okkur framkomuna í hans garð en rétt skal vera rétt. Bæjaryfirvöld í Kópavogi hafa alla tíð litið svo á að Jónas Ingimundarson og Salurinn séu samofin og að eitt verði ekki frá hinu skilið.“