Vont veður á loðnuslóðum

Vilhelm Þorsteinsson EA er ásamt fleiri skipum á loðnuslóðum vestan …
Vilhelm Þorsteinsson EA er ásamt fleiri skipum á loðnuslóðum vestan við Vestmannaeyjar. Erfitt er að eiga við veiðar vegna veðurs. Myndin er úr myndasafni. Þorgeir Baldursson

Loðnugangan er nú komin vestur fyrir Vestmannaeyjar. Erfitt er að eiga við veiðar vegna hvassviðris og kviku á veiðislóðinni. Fjögur skip eru að veiðum undan Vestur-Landeyjum. Loðnugangan virðist hafa tekið góðan sprett vestur með landinu í  austanveðrunum undanfarna daga.

„Það er búin að vera einhver loðna hjá okkur í nótt og í gærkvöldi. Hún er frekar dreifð um stórt svæði og erfitt að eiga við þetta núna vegna veðurs,“ sagði Sigurður Guðmundsson, stýrimaður á Vilhelm Þorsteinssyni EA.

Auk Vilhelms voru á þessum slóðum í morgun Sighvatur Bjarnason VE, Álsey VE og Lundey NS. Fleiri skip voru þarna í nótt en eru nú á leiðinni til Austfjarða með aflann.

Sigurður sagði að erfitt sé að kasta á lensi í suðaustanáttinni sem var í morgun 15-20 m/s og talsverð kvika.  Hann sagði að þeir bíði átekta eftir betra veðri. Þeir á Vilhelm voru ekki að frysta heldur hafa þeir landað aflanum óunnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert