Loðnugangan er nú komin vestur fyrir Vestmannaeyjar. Erfitt er að eiga við veiðar vegna hvassviðris og kviku á veiðislóðinni. Fjögur skip eru að veiðum undan Vestur-Landeyjum. Loðnugangan virðist hafa tekið góðan sprett vestur með landinu í austanveðrunum undanfarna daga.
„Það er búin að vera einhver loðna hjá okkur í nótt og í gærkvöldi. Hún er frekar dreifð um stórt svæði og erfitt að eiga við þetta núna vegna veðurs,“ sagði Sigurður Guðmundsson, stýrimaður á Vilhelm Þorsteinssyni EA.
Auk Vilhelms voru á þessum slóðum í morgun Sighvatur Bjarnason VE, Álsey VE og Lundey NS. Fleiri skip voru þarna í nótt en eru nú á leiðinni til Austfjarða með aflann.
Sigurður sagði að erfitt sé að kasta á lensi í suðaustanáttinni sem var í morgun 15-20 m/s og talsverð kvika. Hann sagði að þeir bíði átekta eftir betra veðri. Þeir á Vilhelm voru ekki að frysta heldur hafa þeir landað aflanum óunnum.