„Langt og hart verkfall“

Myndin sýnir loðnubræðsluna á Raufarhöfn. Nú stefnir í verkfall bræðslumanna …
Myndin sýnir loðnubræðsluna á Raufarhöfn. Nú stefnir í verkfall bræðslumanna á þriðjudag. Mynd/Heimasíða Raufarhafnar

„Það er því engin ástæða til að vera bjartsýnn á að samningar takist við bræðslumenn fyrir þriðjudag og við búum okkur undir langt og hart verkfall,“ skrifar Sverrir Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags í pistli í dag.

Hann gagnrýnir Samtök atvinnulífsins harðlega í pistli sínum og segir SA hafa „dustað rykið af gömlum og þreyttum áróðursaðferðum“ í deilu sinni við bræðslumenn. Sverrir segir að í samningaviðræðum ASÍ og SA fyrir helgina hafi brugðið fyrir vonarneista um skamma stund.

Það er að SA hafi látið „af hótunum sínum gagnvart launafólki vegna fiskveiðistjórnunarkerfis framtíðarinnar. Í hádegisfréttum í gær slökkti talsmaður SA þann vonarneista.“

Sverrir bendir á að síðustu tvo áratugina hafi samráð Alþýðusambandsins og SA verið mikið og kjarasamningar yfirleitt gengið án verulegra átaka. Afrakstur þess vinnulags sem hafi skapast sé að launatöflur séu nánast eins og greyptar í stein. 

SA ætli að semja við alla í einu og hafi mótað samræmda launastefnu án þess varla að spyrja viðsemjandann. „Verkfallið næsta þriðjudag snýst að verulegu leyti um þessi atriði – þ.e. bræðslumenn AFLs og Drífanda eru ekki tilbúnir til að láta setja sig í kassa „alla eins" heldur vilja gera sinn kjarasamning og standa og falla með honum,“ skrifar Sverrir.

Pistillinn á heimasíðu AFLs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert