Nú hafa yfir sex þúsund manns ritað undir áskorun til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að synja Icesave-lögunum staðfestingar, á vefsíðunni kjósum.is undir yfirskriftinni Samstaða þjóðar gegn Icesave.
Áskorunin er líka til Alþingis, um að hafna frumvarpinu.
Á vefnum er áskorunin sem fólk skrifar undir birt svohljóðandi:
„Ég skora á Alþingi að hafna frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Ég heiti jafnframt á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja því lagafrumvarpi staðfestingar, verði það samþykkt á Alþingi. Ég vil að þjóðin fái að úrskurða um þetta mál.“
Hægt er að skrifa undir á vefnum kjosum.is
Þegar þetta er ritað hafa 6.050 manns skrifað undir.
Ólafur Ragnar Grímsson verður gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils hjá Ríkissjónvarpinu innan stundar og má gera ráð fyrir því að Icesave málið verði rætt í þættinum.