Undirskriftir nálgast 9.000

Merki síðunnar Kjósum!
Merki síðunnar Kjósum!

Undirskriftasöfnunin Kjósum.is fer heldur hraðar af stað en undirskriftasöfnun InDefence- hópsins í nóvember 2009. Síða Kjósum.is var opnuð kl. 22.00 á föstudagskvöld og kl. 20.35 í kvöld höfðu 8.808 skráð nöfn sín á síðuna og fjölgaði stöðugt.

Undirskriftasöfnun InDefence-hópsins hófst að kvöldi 25. nóvember 2009 og tveimur sólarhringum síðar höfðu um 8.500 undirskriftir safnast. Sem kunnug er afhenti InDefence-hópurinn Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, undirskriftir rúmlega 56 þúsund manns þann 2. janúar 2010. Forsetinn synjaði síðan Icesave-lögunum staðfestingar og vísaði þeim í þjóðaratkvæði. Þjóðin hafnaði lögunum.

Með undirskrift á síðu kjósum.is skrifar fólk undir eftirfarandi yfirlýsingu:

„Ég skora á Alþingi að hafna frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Ég heiti jafnframt á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja því lagafrumvarpi staðfestingar, verði það samþykkt á Alþingi. Ég vil að þjóðin fái að úrskurða um þetta mál.“

Hópur sem kallar sig Samstaða þjóðar gegn Icesave stendur að síðunni Kjósum! Hann ætlar að kynna sig og talsmenn sína á blaðamannafundi í fyrramálið. Talsmaður hópsins sagði í samtali við mbl.is í dag að ekki hafi verið ætlunin að kynna síðuna fyrr en á þeim fundi. Undirskriftirnar verða afhentar forseta Íslands að söfnun lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka