„Við áttum alls ekki von á þessu,“ sagði Axel Þór Kolbeinsson, einn af aðstandendum undirskrifasöfnunarinnar kjosum.is. Rúmlega 7.600 manns höfðu skráð sig um kl. 16.00 í dag og en voru um 6.000 um kl. 12.00 í dag. Þó er ekki hafin formleg kynning á síðunni.
Axel sagði að undirskriftasíðan hafi verið opnuð klukkan 22.00 síðastliðið föstudagskvöld, en formleg opnun átti að vera eftir blaðamannafund sem haldinn verður klukkan 11.00 í fyrramálið. Hann sagði að þær góðu viðtökur sem síðan hefur fengið, hafi komið aðstandendum hennar á óvart.
Hann sagði að hópurinn sem stendur að síðunni og kallar sig „Samstaða þjóðar gegn Icesave“ verði kynntur á fundinum á morgun.
Með undirskrift sinni lýsir fólk sig samþykkt eftirfarandi texta: „Ég skora á Alþingi að hafna frumvarpi um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Ég heiti jafnframt á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja því lagafrumvarpi staðfestingar, verði það samþykkt á Alþingi. Ég vil að þjóðin fái að úrskurða um þetta mál.“