Tónlistar- og myndlistarmaðurinn Jóhann G. Jóhannsson hefur bannað Bylgjunni að spila lög sín, og nær bannið til allra útvarpsstöðva undir þeim hatti. Hann kveðst óánægður með vinnubrögð tónlistarráðs Bylgjunnar og segir stöðina ekki standa undir nafni sem tónlistarstöð.
Jóhann hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þessa, og fer hún hér á eftir.
„Frá og með 22. febrúar nk. er Bylgjunni ekki heimilt að spila tónlist undirritaðs á neinni af útvarpsstöðvum sínum. Höfundarréttur er eignarréttur og því getur höfundur ákveðið hvort hann leyfir afnot af verkum sínum eða ekki. Lög eins og; Don´t try to fool me, Dagar og nætur, Eina ósk, Hvers vegna varst´ekki kyrr? Fiskurinn hennar Stínu, Glaumbær, Kærleikur, Við eigum samleið, Traustur vinur, Ég er að tala um þig o.fl. munu því ekki heyrast lengur á Bylgjunni.
Nú spyrja sumir væntanlega; af hverju gerir hann þetta? Kemur þetta ekki niður á STEF-gjöldum hans o.s.frv? Hann hlýtur að fá 365 miðla upp á móti sér með þessu. Jú, líklega, en þegar mönnum er fullkomlega misboðið þá rísa sumir á endanum upp til að mótmæla, sama hvað það kostar. Ég hef lengi verið óánægður með Bylgjuna sem tónlistarstöð, finnst hún varla rísa undir nafni sem slík. En útvarpsþættir eins og Reykjavík síðdegis, Ísland í bítið og Sprengisandur eru Bylgjunni hinsvegar til sóma. Í tengslum við útgáfu 5. sólóplötu minnar 2009„Á langri leið“ þá upplifði ég ákveðna framkomu svo kallaðs tónlistarráðs, skipað 5 miðaldra karlmönnum, sem varð til þess að ég ákvað að reyna að gera eitthvað í málinu. Ný íslensk tónlist fór ekki í loftið nema félögunum, sem funduðu einu sinni í viku, þætti hún eiga erindi. Mér fannst þetta ekki í takt við breytta tíma sem maður vonaði að væru að renna upp í samfélaginu í kjölfar hrunsins.
Hlustendur Bylgjunnar eru á ýmsum aldri, konur og karlar. Umræðan um kynjahlutfall hefur greinilega ekki náð eyrum þeirra sem skipuðu ráðið (ef til vill sjálfskipað) og ekki hefur þótt ástæða til að taka tillit til yngri hlustenda. Þetta fyrirkomulag hefur stuðlað að einhæfu tónlistarvali, sérstaklega á nýrri íslenskri tónlist, ásamt ofspilun ákveðinna laga sem á endanum gengur af þeim dauðum. Ég fullyrði að þetta fælir burt tónlistarunnendur sem hafa annað viðhorf til tónlistar en að hún sé uppfyllingarefni á milli auglýsinga. Tónlistarmenn hafa lengi verið ósáttir við hvernig þessum málum er háttað á Bylgjunni, þó það hafi ekki farið mjög hátt, enda ekki gott að fá tónlistarráðið upp á móti sér.
Í júlí í fyrra var gerð hlustendakönnun á vegum FTT sem leiddi margt í ljós. Capacent annaðist framkvæmdina sem var vönduð og ítarleg. Hún átti að vera grunnur að viðræðum um úrbætur. Viðræður við forsvarsmenn Rúv og 365 miðla hafa staðið yfir frá því í september í fyrra og standa enn. Í könnuninni var m.a. spurt um álit hlustenda á tónlistarstefnu Bylgjunnar og Rásar 2. Í samanburði við Rás 2 hlýtur niðurstaðan að hafa valdið forsvarsmönnum Bylgjunnar vonbrigðum. Þegar spurt var; hversu vönduð þykir þér umfjöllun um íslenska tónlist á a) Bylgjunni b) á Rás 2 þá kom í ljós að 14,4% voru ánægð með Bylgjuna en 50,5% með Rás 2. Svo er klifað á því í auglýsingum að Bylgjan sé vinsælasta útvarpsstöð landsmanna.
Ég vil nota tækifærið hér og hvetja stjórn FTT til að birta hlustendakönnunina opinberlega. Ef ætlunin var að nýta niðurstöðurnar til að nálgast óskir hlustenda og færa ýmislegt til betri vegar þá er langt í land í þeim efnum. Ég heyri ekki betur en að allt sé við það sama hjá Bylgjunni. Rás 2 hefur hinsvegar ákveðið að hlutfall íslenskrar tónlistar skuli framvegis vera 50% á móti erlendri tónlist sem er til fyrirmyndar og fleira jákvætt er víst í farvatninu.
Íslensk tónlist er listgrein og um leið atvinnugrein sem skilar sínu í þjóðarbúið með margvíslegum hætti. Við tónlistarmenn sköpum útvarpsstöðvunum dagskrárefni þeim nánast að kostnaðarlausu. Þær borga aðeins afnotagjald en leggja ekkert til framleiðslunnar. 365 miðlar geta alveg eins búist við því að fleiri óánægðir höfundar beiti höfundarrétti sínum með sama hætti og ég. Niðurstöður hlustendakönnunar FTT benda til þess að vinsældir Bylgjunar sem tónlistarstöðvar séu stórlega ýktar.
Jóhann G Jóhannsson, tónlistar og myndlistarmaður “