Sum loðnuskip hafa þegar hætt veiðum og hafa verið bundin við bryggju, en verkfall í fiskimjölsverksmiðjum á að hefjast annað kvöld. Skip HB-Granda og Vinnslustöðvarinnar eru í höfn.
Verkallið á að hefjast kl. 20 annað kvöld. Páll Scheving Ingvarssin, verksmiðjustjóri hjá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum, segir að þá stöðvist öll vinna í loðnubræðslunum. Enga þýðingu hafi því fyrir fyrirtækin að safna hráefni áður en verkfallið hefst því það muni bara skemmast í geymslum á meðan verkfallið stendur.
Skip Ísfélagsins eru enn á miðunum, en ekki hefur verið boðað verkfall í loðnubræðslunni á Þórshöfn. Faxi og Ingunn, loðnuskip HB-Granda eru hins vegar bundin við bryggju og fara ekki út fyrr en kjaradeilan hefur verið leyst. Kap og Sighvatur, skip Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, eru líka í landi, en samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu er óvíst með framhaldið.
Verkfallið nær til loðnubræðslna á Vopnafirði, Seyðisfirði, Norðfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Hornafirði, í Vestmannaeyjum og Akranesi.
Ekki hefur verið boðað verkfall á Þórshöfn, en kjaradeilan er komin til ríkissáttasemjara og boðaður er samningafundur í deilunni eftir hádegið í dag.