Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til að greiða karlmanni 100 þúsund krónur í bætur, en lögreglan fór inn í íbúð mannsins í fjölbýlishúsi í Reykjavík að honum fjarstöddum og gerði þar húsleit án þess að fyrir lægi dómsúrskurður.
Þetta gerðist í september 2009 en lögreglan lét kalla til lásasmið til þess að opna íbúðina. Ekkert saknæmt fannst við húsleitina og að henni lokinni hafði lögreglan samband við húsráðandann og afhenti honum nýja lykla að íbúðinni á bensínstöð í borginni.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að lögreglan taldi að verið væri að rækta kannabisjurtir í íbúðinni. Lögregla hafði fyrr á árinu stöðvað stórfellda ræktun kannabis þar.
Lögreglan taldi frágang íbúðarinnar hafa verið með svipuðu sniði og í hið fyrra sinn. Meðal annars hafði verið byrgt fyrir alla glugga og upplýsingar bárust um grunsamlegar ferðir manna inn og út úr íbúðinni.
Héraðsdómur segir, að ekki verði séð að bið eftir úrskurði dómara hafi getað valdið
sakarspjöllum. Því hafi aðgerðir lögreglu verið óþarfar eins og á stóð og rannsóknarhagsmunir ekki
verið slíkir að réttlætt hafi húsleit á heimili mannsins án þess að fá til
þess úrskurð dómara.