Kristján Ólafsson, sauðfjárbóndi í Engidal, segir að Matvælastofnun hafi tekið ákvörðun um að taka kjöt frá honum út af markaði þrátt fyrir að sýni sem tekin voru úr kjötinu sýni að díoxín sé langt undir mörkum. Hann óttast að erfitt geti orðið fyrir sig að sækja bætur vegna tjóns þegar hann geti ekki sannað að kjötið hafi ekki verið neysluhæft.
Kristján segir að sýni sem tekin voru úr kjöti hjá sér hefðu leitt í ljós að díoxínmagn var 0,15 pg/g fitu, en viðmiðunarmörk eru 3. Hann segir að ástæða þess að díoxín mælist langt undir mörkum hjá sér sé að hann hafi alltaf heyjað fyrir féð út í Bolungarvík og kindurnar gangi mest út í Arnardal, Breiðadal og Tungudal, en mjög lítið í Engidal. Kristján sagði að Matvælastofnun hefði ekki viðurkennt þessi rök og ekki gefið honum framleiðsluleyfi þrátt fyrir niðurstöðu þessara mælinga.
Kristján er stærsti fjareigandi í Engidal með um 200 fjár, en fjáreigendur í nágrenni sorpbrennslustöðvarinnar Funa eru með samtals rúmlega 300 fjár.
Kristján sagði að þrátt fyrir niðurstöðu sýnatöku hefði Matvælastofnun ákveðið að kjöt frá honum sem var í sölu yrði tekið af markaði. „Það er erfið réttarstaða að vera með hrein sýni og þurfa svo að sækja bætur gagnvart Ísafjarðarbæ.“
Kristján sagðist ekki vera búinn að fá skýr fyrirmæli frá Matvælastofnun um að honum beri að farga fénu. Hann sagðist vera tilbúinn til að láta taka fleiri sýni til að rannsaka þetta betur, en hann hefði ekki fengið svör frá stofnuninni. „Ef ég fæ ekki svör innan eins mánaðar um næstu skref þá mun ég ekki slátra fénu fyrir sauðburð. Ég stend ekki í því að slátra rollum með nær fullsköpuðum lömbum.“
Kristján sagðist telja að það væri mikil hystería í kringum þetta mál allt saman. Hann sagðist sjálfur borða óhikað það kjöt sem hann framleiddi. „Ég er búinn að fá staðfestingu á því frá Matvælastofnun að þótt díoxín mældist í mér í magninu 3 þá væri ég ekki með meiri mengun í líkama en reykingamaður.“
Díoxín mældist yfir mörkum í sauðfé og mjólk hjá Steingrími Jónssyni, bónda í Efri-Engidal. Hann segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um hvenær skepnunum verði slátrað, en hann reiknar ekki með að kindurnar verði látnar bera í vor. Hann segist heldur ekki hafa fengið fyrirmæli um hvort grafa eigi kindurnar eða hvernig standa eigi að förgun. Hann segir að einnig lægi fyrir að hann verði að farga kúm á bænum. Mjólkin verði ekki söluhæf þegar díoxín sé á annað borð komið í kýrnar þó að skipt sé um fóður.
Steingrímur vildi ekki tjá sig um hvort hann sé farinn að undirbúa kröfur um bætur vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir.