Hópur níu þingmanna hefur lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að innanríkiráðherra verði falið að leggja fram lagafrumvarp um svonefndar forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.
Siv Friðleifsdóttir er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Í greinargerð segir m.a. að flutningsmenn telji tímabært að veita lögreglunni á Íslandi sambærilegar heimildir og lögreglan annars staðar á Norðurlöndum búi við hvað varðar úrræði til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Ljóst er að með þessum heimildum yrði samstarf íslensku lögreglunnar við lögreglulið annarra landa mun markvissara og líkur ykjust á að unnt yrði að hemja skipulagða glæpastarfsemi.