Um 62% landsmanna vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um nýjasta Icesave-samninginn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðhorfskönnun sem MMR gerði fyrir þjóðmálafélagið Andríki dagana 8. – 11. febrúar sl.
Spurt var: Telur þú eðlilegt að íslenska þjóðin fái að segja álit sitt á nýjasta Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu? Af þeim sem afstöðu tóku svöruðu 62,1% já. Nei sögðu 37,9%.
Ekki er marktækur munur á afstöðu kynja. Meirihluti í öllum aldurshópum er fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Sömuleiðis er bæði meirihluti fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu á höfuðborgarsvæði og á landsbyggðinni þótt hann sé meiri á landsbyggðinni eða 68%. Úrtak var 865 einstaklingar og afstöðu tóku 80,2%.