Á fundi sem haldinn var að frumkvæði Samtaka verslunareigenda við Laugaveg og Íbúasamtaka miðborgar í kvöld kom fram að víðtæks samstarfs sé þörf, eigi að takast að leysa vanda miðborgarinnar.
Yfirskrift fundarins var „Ofbeldið burt" og í fundarboði voru allir sem láta sig málefni miðborgarinnar einhverju varða hvattir til að mæta.
Meðal þeirra sem voru með framsögu á fundinum var Stefán Eiríksson lögreglustjóri. „Þetta var góð umræða um stöðu mála í miðborginni. Við ræddum þær leiðir sem til eru, bæði gamlar og nýjar og um aukið samstarf lögreglu, borgaryfirvalda og skemmtistaðaeigenda,“ sagði Stefán í samtali við mbl.is.
Stefán sagði að rætt hefði verið um breytingar á opnunartíma skemmtistaða í miðborginni og ýmis sjónarmið komið fram, enda séu hagsmunir fólks mismunandi varðandi það.
Opnunartími í skoðun
Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði að niðurstaða fundarins hefði í stuttu máli sagt verið sú að efna þyrfti til umræðu og koma á almennri vitundarvakningu um ofbeldi og hvernig hægt væri að draga úr því. „Mér hefur verið það mikið kappsmál að vinna að ofbeldislausri borg,“ sagði Jón.
Hann segir að opnunartími skemmtistaða sé í skoðun. „Það er búið að stytta opnunartíma skemmtistaða um hálftíma, við munum meta árangurinn af því og hugsanlega gera einhverjar frekari breytingar. En ég held að það sem muni skila okkur mestu sé almenn meðvitund um hvernig við eigum að umgangast áfengi, ekki fleiri reglugerðir.“
Jón sagði að mikið hafi verið rætt um Laugaveginn á fundinum, kvartað hefði verið undan „ákveðnum manngerðum“ og tilteknum veitingastöðum sem ekki ætti heima á Laugaveginum og að þeim fylgdi eiturlyfjaneysla og ofbeldi.
„Ég held að það sé ekki raunhæft að segjast ætla að útrýma ofbeldi. En það er hægt að draga úr því.“
Slæmt karma
„Spurningin er hvernig við ætlum að sjá þessi mál fyrir okkur í framtíðinni. En ég er ánægður með fundinn, margir komu á hann og það sýnir hvað þörfin er rík að koma þessum málum í lag.“
Jón segist hafa ákveðnar hugmyndir um ímynd borgarinnar. Það sé til dæmis ekki jákvætt að hafa hús héraðsdóms á Lækjartorgi, nær væri að hafa þar „einhverja skemmtilega starfsemi,“ dómshúsinu fylgdi „slæmt karma“ sem ætti lítið erindi í miðborgina.
„Þetta er ekkert undir einhverjum fámennum hópi komið, þetta er samstarfsverkefni sem hefur með okkur öll að gera.“
Að sögn Jóns er verið að auka samstarf á milli Reykjavíkurborgar og löggæslunnar. „Það hefur verið kallað eftir fleiri myndavélum en það er engin lausn.“
78 sjúkraflutningar á hverja 1000
Einn framsögumanna á fundinum var Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri. Hann sagði að sjúkraflutningar úr miðbænum væru 78 á hverja 1000 íbúa, sambærileg tala fyrir landið allt er um 30 flutningar á hverja 1000 íbúa. „Þetta er fyrst og fremst vegna skemmtanalífsins, “sagði Jón Viðar.