Ummæli dæmd dauð og ómerk

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjaness hefur hefur dæmt konu til að greiða manni 200.000 kr. í miskabætur vegna ummæla sem hún lét falla í svokölluðu Lúkasarmáli. Þá hafa ummælin sem konan viðhafði í tengslum við málið verið dæmd dauð og ómerk. 

Auk þess að þurfa að greiða miskabætur vegna ærumeiðinga er konunni  jafnframt gert að greiða 400.000 kr. í málskostnað og 100.000 kr. til birtingar dómsniðurstöðu.

Málið vakti mikla athygli og umfjöllun árið 2007. Helgi Rafn Brynjarsson var sakaður var um að drepa hundinn Lúkas og höfðaði hann málið á hendur konu vegna ummæla sem hún viðhafði á bloggsvæði sínu, en konan skrifaði undir nafni. Helgi Rafn krafðist 500 þúsund króna í miskabætur.

„Ljóst þykir að umfjöllun um stefnanda sem ætluðum geranda í hvarfi hundsins á sínum tíma hafði mikil áhrif á líf stefnanda þar til hið sanna kom í ljós. Stefnandi var nafngreindur og varð hann auk þess fyrir margskonar áreiti og hótunum. Stefnandi tók fram í skýrslu sinni við aðalmeðferðina að hann hefði ekki orðið fyrir hótunum af hálfu stefnanda,“ segir m.a. í dómi Héraðsdóms Reykjaness.

Mögulegt að fleiri skaðabótamál verði höfðuð

Arnar Kormákur Friðriksson, lögmaður Helga Rafns, kveðst ánægður með niðurstöðuna. „Vissulega þá er þetta ánægjuleg niðurstaða. Þó ég hefði kannski viljað sjá dóminn fallast á miskabótakröfuna sem við settum fram,“ segir Arnar.

„Þetta er góður áfangi í þessari vinnu sem hófst fyrir margt löngu síðan í því að endurreisa mannorð þessa unga manns og sækja um þær bætur sem hann á rétt á,“ segir Arnar.

Það komi nú til skoðunar hvort höfðuð verði mál á hendur öðrum einstaklingum sem eru sakaðir um meiðyrði á hendur manninum. Um fimm aðra einstaklinga er að ræða að sögn Arnars.

„Eins og fram hefur komið áður þá eru aðrir hafa látið ummæli falla sem eru til skoðunar og það verður metið eftir að við erum búnir að skoða forsendurnar í þessum dómi.“ Það séu því mögulega forsendur fyrir því að höfða fleiri mál, sem fyrr segir.

Verjandi konunnar segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert